Strax við upphaf skólans í ágúst 2003 var mörkuð sú stefna að umhverfismennt mundi skipa stóran sess í skólanámskrá skólans og strax var skipuð umhverfisnefnd sem leiddi starfið frá upphafi. Nefndin sá um að undirbúa og kynna starfið með börnunum auk þess að koma á framfæri upplýsingum til annarra kennara.

Árið 2005 var sótt um að Naustatjörn yrði skóli á grænni grein og fór skólinn formlega á græna grein í september 2005. Grænfáninn var afhentur í fyrsta sinn árið 2007 og hefur skólinn fengið fánann eftir það árin 2009, 2011, 2013, 2015, 2017 og 2019.

Í hópastarfi ár hvert er unnið markvisst með umhverfismennt með börnunum. þau læra um fjöllin í kringum okkur, þau læra um veðurfar, um plöntur og dýralíf í ævintýraferðum og síðast en ekki síst læra þau að spara vatn, sápu og pappír inn á snyrtingum auk þess sem þau læra að endurvinna og endurnýta ýmis konar efnivið í listsköpun og leik.

Þemað sem við völdum fyrir tímabilið 2021-2022 er Neysla og úrgangur og vonumst við til að fá grænfánann í 8 skipti í júní 2022.

„Frá fyrstu stundu beita börn ýmsum aðferðum við að reyna að skilja umhverfi sitt. Börn kanna og ræða samhengi fyrirbæra. Ýta þarf undir forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta.“ (Aðalnámskrá leikskóla 2011 – kafli 9.3 bls. 44).

Markmið Naustatjarnar með umhverfismennt eru:

  • Að börnin læri að bera virðingu fyrir náttúrunni og fjölbreytileika hennar
  • Að börnin læri að njóta náttúrunnar og komast í tengsl við hana
  • Að börnin læri um náttúruna, umhverfið og verndun þess

Námsleiðir: Lögð er áhersla á að börnin gangi vel um og læri að meta og þekkja umhverfi sitt. Fjölbreyttar vettvangsferðir eru reglulega farnar út í náttúruna og umhverfið. Farið er reglulega með hóp barna í skipulagðar ferðir og eru börnin undirbúin fyrir ferðirnar. Þegar heim er komið er unnið úr upplifun þeirra og þeim efnivið sem þau hafa safnað í ferðunum. Hlustað er eftir áhuga barnanna, spurningum þeirra svarað og þau hvött til frekari rannsókna og tilrauna. Einnig eru til tæki sem hægt er að nota í tilrauna – og ræktunarskyni því börnin rækta bæði úti og inni, m.a. blóm, fræ, karsa og kartöflur. Lesnar eru bækur, ljóð og sungið um náttúruna til að fræðast og fá tilfinningu fyrir henni. Unnið er út frá veðurfari og árstíðum, börnin læra að endurnýta margvíslegan efnivið og nota í verkefnum og leik, flokka úrgang og fara með í endurvinnslustöðvar.

Kennsluskipulag: Unnið er markvisst með náttúru og umhverfi í hópastarfi en auk þess fer fræðsla og umræður fram í samverustundum, á Barnafundum í útiveru og í hinum ýmsu ferðum utan lóðar skólans.

Umhverfissáttmáli Naustatjarnar:

  • Við lærum að þekkja nánasta umhverfi okkar, náttúruna og samfélagið og að ganga um það af virðingu
  • Við endurnýtum það sem hægt er
  • Við flokkum þann úrgang sem fer í endurvinnslu
  • Við spörum orku og vatn

Leiðir að Umhverfissáttmála Naustatjarnar eru:

  • Að efla umhverfisvitund nemenda með fræðslu um umhverfi sitt og náttúru, með góðu fordæmi og verkefnum
  • Að nýta efni sem fellur til, m.a. til sköpunar, rannsókna og tilrauna
  • Að flokka lífrænan úrgang til moltugerðar. Pappír, pappi, fernur, gler, málmar, plastumbúðir, kerti og rafhlöður er flokkað og farið með í endurvinnslu
  • Að gæta þess að slökkt sé á rafmagnstækjum og ljósum þegar þau eru ekki í notkun og passa að vatn renni ekki að óþörfu
  • Að nemendur læri um mikilvægi og gagnsemi trjá og annars gróðurs til að viðhalda hreinu andrúmslofti á jörðinni (ljóstillífun/hringrásin)
  • Leggjum áherslu á hreyfingu og hollt og fjölbreytt mataræði.

  • Leggja áherslu á að kenna börnum um fjölbreytileika og um mismunandi menningarheima í gegnum bækur, lög og myndir. Finna efni sem höfðar til þeirra.

Umhverfisnefnd Naustatjarnar fyrir starfsárið 2022- 2023 skipa:
Fyrir hönd stjórnenda: Aðalheiður Hreiðarsdóttir aðstoðarskólastjóri

Fyrir hönd Sunnuhvols: Sylvía Ösp Hauksdóttir leiðbeinandi

Fyrir hönd Fífilbrekku: Diljá Tara Pálsdóttir Háskólamenntaður starfsmaður

Fyrir hönd Tjarnarhóls: Aðalheiður Anna Atladóttir leiðbeinandi

Fyrir hönd Vökuvalla: Auður Ósk Hilmarsdóttir leiðbeinandi

Fyrir hönd Huldusteins: Soffía Sigurðardóttir leikskólakennari

Fyrir hönd Búðargils: Bryndís Harpa Björnsdóttir háskólamenntaður starfsmaður og verkefnisstjóri

Fyrir hönd nemenda: tvö börn úr árgangi 2017 og tvö úr árgangi 2018.
Fyrir hönd foreldra: tveir foreldrar eru í nefndinni að þessu sinni Aron (foreldri á BG og HS) Sindri (foreldri á TH og HS)


Grænfáninn - upplýsingar

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Skrefin 7 sem uppfylla þarf eru:
1. Umhverfisnefnd.
Umhverfisnefnd starfar við skólann og skipuleggur og stýrir verkefninu. Í nefndinni sitja fulltrúar nemenda, kennara, ræstingafólks, umsjónarfólks, foreldra og stjórnenda skólans. Nefndin á að starfa samkvæmt lýðræðislegum leikreglum og nemendur eiga að hafa þar mikið vægi. Mikilvægt er að nefndin haldi reglulega fundi, þar séu skráðar fundargerðir og séð til þess að nemendum sé leiðbeint um hlutverk sitt sem fulltrúar samnemenda sinna við stjórnun skólans hvað umhverfisstefnu varðar. Þannig gegnir umhverfisnefndin mikilvægu hlutverki í kennslu í lýðræðislegum vinnubrögðum og lífsleikni.
2. Mat á stöðu umhverfismála.
Meta skal stöðu umhverfismála í skólanum t.d. með aðstoð sérstaks gátlista. Matið á að ná til fjölmargra þátta. Nauðsynlegt er að sem flestir nemendur taki þátt matinu.
3. Áætlun um aðgerðir og markmið.
Þær upplýsingar sem matið veitir eru notaðar til að gera áætlun um markmið og aðgerðir. Mikilvægt er að skólar setji sér raunhæf markmið, forgangsraði þeim og hafi í huga að ekki þarf að ná öllum markmiðum í einu – verkefnið heldur stöðugt áfram. Best er að setja sér fá og skýr markmið og gjarnan að einhverju leyti mælanleg.
4. Eftirlit og endurmat.
Stöðugt eftirlit og endurmat á að tryggja að settum markmiðum sé náð, þau viðurkennd og þeim fagnað og ný markmið sett. Þessi þáttur á einnig að tryggja stöðuga umhverfismenntun í skólanum.
5. Námsefnisgerð og verkefni.
Flestir nemendur fá markvisst nám í samræmi við þemun t.d. orku, vatn og úrgang. Allur skólinn tekur mið af verkefninu t.d. með því að spara vatn, flokka úrgang og minnka rusl. Byggja skal á námsskrá eftir því sem við á og bæta viðeigandi þáttum inn í skólanámskrá í samræmi við umhverfisstefnu.
6. Að upplýsa og fá aðra með.
Skóli með umhverfisstefnu hefur áhrif út á við, á sveitarstjórnir, fyrirtæki og samfélag í samræmi við Staðardagskrá 21. Skólarnir eru hvattir til að tengjast öðrum stofnunum til að læra af reynslu þeirra og sérþekkingu. Skólarnir eru einnig hvattir til að hafa samfélagið umhverfis í huga við gerð markmiða. Alls kyns opnar sýningar á verkum nemenda og kynningar í skólanum eða í fjölmiðlum upplýsa samfélagið um framgang verkefnisins.
7. Umhverfissáttmáli.
Skólanum er settur umhverfissáttmáli sem lýsir í stuttu máli heildarstefnu skólans í umhverfismálum og umhverfismennt og framtíðarsýn. Mikilvægt er að sáttmálinn sé unninn í samvinnu allra sem að skólanum standa og að hann sé vel kynntur innan skólans og utan.

Landvernd: Grænfánaverkefninu á Íslandi er stýrt af Landvernd sem er aðili að alþjóðlegu samtökunum FEE. Stýrihópur um Grænfána er Landvernd til fulltingis um allt sem viðkemur verkefninu.
Upphafið:
Sumarið 2000 gerðist Landvernd aðili að samtökunum Foundation for Environmental Education in Europe (FEEE). Síðan hafa samtökin gerst alþjóðleg og stytt nafn sitt í samræmi við það og nota skammstöfunina FEE. Samtökin sjá um fjögur mismunandi umhverfisverkefni og er Grænfáninn eitt af þeim. Haustið 2000 skrifaði Landvernd nokkrum stofnunum og aðilum og boðaði til vinnufundar í þeim tilgangi að ræða og meta hvort Grænfáninn félli að þörfum íslenskra skóla og ef svo væri að setja þá fram tillögur um framhald vinnunnar. Hópurinn hélt tvo fundi í október og nóvember og niðurstaða hans var að sett yrði á laggirnar tilraunaverkefni um Grænfánann til tveggja ára. Það hæfist með því að senda öllum grunnskólum á landinu lýsingu á verkefninu og óska eftir umsóknum þeirra sem vildu taka þátt frá byrjun. Gert var ráð fyrir að fara af stað með um fimm skóla. Hópurinn gekk einnig frá framkvæmda- og fjárhagsáætlun til tveggja ára. Á útmánuðum 2001 var öllum grunnskólum á landinu sent kynningarbréf um Grænfánann og óskað eftir að áhugasamir sæktu um þátttöku og í maí stofnaði Landvernd sérstakan stýrihóp um verkefnið og réð verkefnisstjóra. Tólf skólar sóttu formlega um að taka þátt frá byrjun í verkefninu á Íslandi. Niðurstaða stýrihóps var að svara þeim öllum jákvætt. Strax vorið 2002 voru þrír fyrstu Grænfánarnir dregnir að húni á Íslandi.

Upplýsingar eru fengnar af síðu landverndar: http://www.landvernd.is
Tenglar sem áhugavert er að skoða í tengslum við málefni sem snerta umhverfismál eru m.a.Heimasíða umhverfisstofnunar: http://ust.is/

Heimasíða Sorpu: http://sorpa.is
Heimasíða Umhverfisráðuneytis: http://umhverfisraduneyti.is/
Heimasíða Náttúru.is: http://www.natturan.is/


© 2016 - 2024 Karellen