Mikilvægt er að dagurinn sé eins frá degi til dags, það veitir börnunum öryggi að vita hvað er að gerast í kringum þau. Daglegar venjur s.s. matartímar, hvíld, samverustundir, útivera og aðrir fastir liðir eru í starfsemi skólans.

Leikur barnanna:
Þegar börnum býðst mismunandi verkefni á sama tíma gefst þeim kostur á að velja þann leik og leikefni sem þau hafa áhuga á. Á þennan hátt verða börnin virk í þroskaferli sínu. Börnin ákveða sjálf í hvaða leikjum þau leika sér og þau hafa ánægju af þeim. Í gegnum leikinn er hægt að vinna markvisst að eflingu alhliða þroska barnanna og þau eru hvött til að nota ímyndunarafl sitt, hugsun, sköpunargleði og skynjun til að uppgötva heiminn á sinn margvíslega hátt. Leikjum barna má flokka niður í fjóra aðalflokka eftir inntaki þeirra og uppeldis/ menntunargildi.
Margir leikir eru fjölþættir og þeir geta flokkast undir fleiri en einn flokk.
1. Skynfæra- og hreyfileikir; innan þessa flokks er hægt að skipta leikjunum niður í hreyfingu, tónlist, vatnsleiki og ferðir.
2. Sköpunar- og byggingaleikir, innan þessa flokks eru listsköpun og byggingaleikir.
3. Hlutverka- og ímyndunarleikir.
4. Regluleikir

Hópastarf:
Í hópstarfi er börnunum skipt í hópa eftir aldri og þroska, í hverjum hóp eru 5-8 börn og einn til tveir umsjónarkennarar. Í hópastarfinu eru tekið fyrir ákveðið þema sem alltaf eru áhersluþættir skólans, náttúra og umhverfi og samfélag og menning. Hvernig unnið er með þessa þætti ræðst af hugmyndum og getu barnanna, því þau ákveða hver fyrir sinn hóp viðfangsefni vetrarins. Umsónarkennarar leggja auk þess fram verkefni og efnivið, þeir eiga alltaf til ráð og hugmyndir til að vinna með.
Hópastarfstímarnir hafa alltaf ákveðið upphaf s.s. að börnin í hópnum heilsast og ræða saman um hvað verður tekið fyrir í þessum tíma og síðan er ákveðinn endir þar sem börnin þakka fyrir hópastarfið og kveðjast.

Uppbygging hópastarfsins:
Upphaf - börnin fara í hring, leiðast og heilsast, fara í orðaleiki, syngja eða fara með þulu.
Upphitun - hreyfing, hreyfisöngvar eða stuttir leikir.
Könnun - verkefni dagsins útskýrð.
Aðalæfing - Það verkefni sem börnin vinna að hverju sinni.
Frásögn - börnin fara í hring og segja frá því sem þau hafa verið að gera og hvað þeim finnst um verkefnið.
Endir - börnin leiðast, kveðja og þakka fyrir stundina.
Ekki er ætlast til þess að farið sé í alla þessa þætti hverju sinni, heldur valdir ákveðnir þættir hverju sinni. Þó er gott að hafa alltaf eins upphaf og endi.

Samverustundir:
Í samverustund gefst börnum og lkennurum tækifæri til að eiga saman notalega stund í ró og næði. Þá er hægt að lesa, syngja og spjalla saman um það sem vekur áhuga hverju sinni og um daglegt líf barnanna. Gjarnan er farið inn með tónlistarvagn skólans þar sem börnin kynnast hljóðfærum og frum- og túlkunarþáttum tónlistar. Í þessum stundum eru börnin á svipuðum aldri.

Útivera:
Útivera er mikilvægur þáttur í uppeldistarfi skólans, þar sem grófhreyfingum og frjálsum leik er gert hátt undir höfði. Útiveran er holl öllum frískum börnum. Í útiveru fer ekki minna nám fram en inni, því er ekki síður mikilvægt að huga að því að útisvæðið sé skapandi. Utan dyra geta börnin leyft sér ærslaleiki, hróp og köll. Þar geta þau hlaupið, hoppað, stokkið og klifrað. Leikvöllur skólans er vel fallinn til alls konar hreyfileikja, bæði sjálfsprottinna og skipulagðra. Ýmsir hlaupaleikir reyna verulega á þrótt barnanna og úthald, örva hjartslátt og blóðrás.
Sumir foreldrar óska eftir inniveru fyrir börnin sín í því skyni að verja þau gegn veikindum, en það er ekkert sem bendir til þess að börn sýkist frekar í útilofti en innandyra. Börn sem dvelja langdvölum innandyra eru oft kulsælli og viðkvæmari en þau börn sem vön eru útiveru.

© 2016 - 2024 Karellen