Leikurinn er kjarni uppeldisstarfs í leikskólum. Hann er bæði markmið og leið í uppeldi og menntun.
Frjáls og sjálfsprottinn leikur er hið eðlilega tjáningarform barnanna. Reynslan tekur oft á sig form leiksins. Í frjálsum leik eru mikilvægir uppeldiskostir sem geta eflt alhliða þroska barnanna, þ.e. líkams-, tilfinninga-, félags-, vitsmuna-,siðgæðis-, og fagurþroska. Hvaða þroskaþættir örvast í leiknum fer eftir því hvert eðli leiksins er. Leikurinn greinist frá öðru atferli að því leyti að hann er sjálfsprottið og skapandi ferli sem börnin stjórna sjálf. Sköpunarþörf og hugmyndaflug barnanna birtist í ýmsum leikjum þeirra. Í mörgum leikjum fá börnin hreyfiþörf sinni fullnægt og þau æfa og þjálfa hreyfingar sínar og líkamsstjórn.
Í hlutverka- og ímyndunarleikjum, auk annarra samleikja lærist börnunum nauðsyn þess að vinna saman og taka tillit til annarra. Í leikjum með leikreglum læra þau einnig að virða annarra rétt og einfaldar samskiptareglur.

Leikjum barna má flokka niður í fjóra aðalflokka eftir inntaki þeirra og uppeldis/menntunargildi. Margir leikir eru fjölþættir og þeir geta flokkast undir fleiri en einn flokk.

Skynfæra- og hreyfileikir:
Hreyfing
Leikurinn birtist í því að börnin eru aðallega upptekin af því að beita líkama sínum og kanna skynfæri sín. Virkni þeirra eða leikur felst í hreyfingu og beitingu vöðva og skynfæra. Börnin eru að uppgötva hreyfifærni líkamans og þurfa til þess rými og tíma, þau þurfa líka að skoða, snerta, lykta, bragða, hlusta o.s.frv. Hreyfingin þjálfar skynfæri barnanna, örvar gróf- og fínhreyfingar, eflir samhæfingu hreyfingar þannig að þeim verði fært að skynja líkama sinn á ýmsan hátt. Með því að bjóða börnum örvandi leikskilyrði og nýja reynslu í hreyfingu og færni líkamans er fróðleiksfýsn þeirra vakin og þau hvött til að afla sér þekkingar t.d. um heiti líkamshluta. Með hreyfileikjum eykst hugtakaskilningur, s.s. fyrir framan/aftan, yfir/undir, o.s.frv.
Tónlist
Er mikilvægur þáttur í alhliða þroska barna og ekki hvað sýst í eflingu tilfinninga-, hreyfi-, og vitþroska þeirra. Rannsóknir benda til þess að leikskólaárin séu mikilvægt næmniskeið í tónlistarþroska barna. Þegar börn tala, syngja, hreyfa sig, dansa og spila nota þau líkama sinn til að skynja, tjá, og túlka tilfinningar og geðhrif. Hægt er að hjálpa börnum að læra að hlusta eftir frumþáttum tónlistar eins og hrynjanda, hljóðlengd, styrk, hraða, blæ og formi. Tónlistarþroska öðlast börn með því að fá fjölbreytta reynslu af tónlist og að fá að kynnast hljóðum og tónum í frjálsum leik í samræmi við þroska sinn.
Vatnsleikir
Þeir hafa mikið gildi fyrir andlegan og líkamlegan þroska barna. Þeir auðga m.a. ímyndunarafl og skynjun og gefa börnunum tækifæri til að kynnast eiginleikum vatnsins. Í vatnsleikjum eykst hugtakamyndun s.s. heitt/kalt, grunnt/djúpt, þurrt/blautt. Þau þjálfa félagsfærni sína, örva málþroska og æfast í því að klæða sig úr og í fötin sín.
Ferðir
Ferðir víkka sjóndeildarhring barna og reynsluheim þeirra. Þau fá hugmyndir að nýjum leikjum og fá betri skilning á því hvernig samfélagið er. Leggja þarf mikla áherslu á hreyfingu og útiveru þar sem umhverfi barnanna býður upp á æ meiri kyrrsetu. Auk þess fá þau tilfinningu fyrir vegalengdum og læra að rata um nánasta umhverfi sitt.

Sköpunar- og byggingaleikir:

Listsköpun
Listsköpun eflir sjálfstraust barna og styrkir jákvæða sjálfsmynd þeirra. Listsköpun örvar hugmyndaflug og löngun til að tjá sig á skapandi hátt. Samhæfing augna og handa styrkist og börnin fá útrás fyrir tilfinningar sínar og verklagni. Þau njóta þess að skapa eitthvað sjálf úr margs konar efniviði og sjá upplifanir sínar og skapandi afl birtast í verkum sínum á áþreifanlegan hátt. Þau þjálfa einbeitingu með því að fylgja myndsköpunarferlinu stig af stigi án þess að gefast upp. Börnin læra að miðla hugmyndum sínum og tilfinningum til annarra með verkum sínum.
Byggingaleikir
Í kubbum kynnast börnin formum, eiginleikum og efniviði hluta. Byggingaleikir efla sköpunarhæfni, ímyndunarafl, skynjun og fagurskyn. Hugtakamyndun styrkist s.s. stór/lítill, stærri/minni, fleiri/færri, langur/stuttur. Einnig lærast formheitin þríhyrningur, ferhyrningur, ferningur o.s.frv. Í kubbaleik ræður hugarheimur barnanna ferðinni, kubburinn getur verið nánast hvað sem er í hugum barnanna, t.d. bíll, bátur eða maður.

Hlutverka- og ímyndunarleikir:

Leikurinn felst í því að börn ímynda sér að hlutir, þau sjálf og annað fólk sé að þykjast vera annað en það er í raun. Börnin líkja eftir fyrirmyndum, þau setja sig í spor annarra og lifa sig inn í atburði sem gerast í kringum þau. Með hugmyndaflugi sínu umbreyta börn persónum og atburðum eftir skilningi sínum og þörfum. Í þykjustuheimi sínum taka börn á sig margskonar gerfi, leika fjölbreytileg hlutverk og þykjast vera hinar ýmsu persónur, dýr eða dauður hlutur. Þau ljá hlutverkum sínum persónulegan blæ og gefa oft tilfinningum sínum lausan tauminn, tjá reiði, afbrýðisemi, hræðslu og blíðu.

Regluleikir:
Í lok leikskólaaldurs vaknar áhugi barna á regluleikjum. Regluleikir eru ýmsir hreyfileikir, eltingaleikir, feluleikir, hópleikir og ýmis spil. Í þessum leikjum aukast samskipti barna innbyrðis. Þau læra leikreglur, þurfa að sýna umburðarlyndi og taka tillit til annarra. Þau þurfa að virða skoðanir og rétt annarra og tileinka sér umgengnishætti og framkomu sem nauðsynleg er í samskiptum við aðra. Börnin læra að vinna í hóp og leysa deilur án valdbeitingar. Þau fá þjálfun í því að beita rökhugsun og útsjónarsemi, úthald eykst og félagsþroski þeirra eflist. Í flestum þessum leikjum þarf hinn fullorðni að stjórna, einkum til að byrja með. Einnig er nauðsynlegt að vernda hefðbundna gamla leiki frá gleymsku með því að kenna börnum þá og njóta þeirra með þeim.


© 2016 - 2024 Karellen