Klæðnaður/bleiur

Klæðnaður barnanna þarf að vera í samræmi við veðurfar og greinilega merktur börnunum. Nauðsynlegt er að hafa aukafatnað meðferðis í skólann, bæði inniföt og útiföt og bera foreldrar ábyrgð á því að viðeigandi fatnaður sé til staðar. Gott er að hafa í huga að skólinn er vinnustaður barnanna og því er betra að hafa þau í fötum sem mega verða fyrir hnjaski.

Fyrir foreldra þeirra barna sem eru með bleiur eru tvær leiðir til. Önnur er að foreldrar komi sjálfir með bleiur fyrir börnin. Hin leiðin er að vera í bleiuáskrift, þá borga foreldrar fast mánaðargjald sem rukkað er inn með leikskólagjöldum og sér skólinn þá alfarið um öll kaup á bleiunum. Ef foreldar vilja segja upp bleiuáskrift þarf það að gerast fyrir 20. hvers mánaðar ef uppsögn á að taka gildi mánuðinn á eftir.

Taupokar (plastpokar) undir blaut föt

Þar sem skólinn flaggar Grænfánanum eru ýmsar leiðir farnar til að spara orku og minnka notkun á plastpokum. Ein þeirra leiða sem farnar eru, er að ekki eru lengur þurrkskápar í skólanum. Þetta kallar á það að foreldrar fá heim blaut föt. Best er að geta sett fötin í taupoka. Einnig geta foreldrar sett plastpoka að heiman í töskur barna sinna svo kennarar geti sett blaut fötin í poka. Ekki eru plastpokar í boði í skólanum.

Forstofa/ töskur

Foreldrar eru beðnir um að ganga vel frá fötum og skóm barna sinna við upphaf og í lok hvers dags. Mikilvægt er að taka til þann fatnað sem börnin þurfa fyrir daginn og setja í hólfin. Nauðsynlegt er að tæma bæði hólf og skógrindur á föstudögum svo hægt sé að þrífa vel forstofur skólans. Börnin eru ekki með töskur né stóra margnota poka í hólfum sínum.


© 2016 - 2023 Karellen