Að leggja grunninn. Einn af grunnþáttum Jákvæðs aga í leik- og grunnskólum eru barnafundir/bekkjarfundir. Um fjögurra ára aldurinn geta börn varið frá 10 til 20 mínútum í hring þar sem þau fara í lausnaleit, hjálpa hvert öðru og hafa gaman af. Á fundunum læra þau og efla tilfinningalega og félagslega færni, lausnaleit, gagnrýna hugsun, samkennd og að leggja fram hugmyndir.

Tveggja til þriggja ára gömul börn geta tekið þátt í fundum og notið þess ef umgjörð og dagskrá er einfölduð, þau læra að hrósa og hvetja, að leggja fram hugmyndir og hefja það nám að efla og styrkja tilfinningalega og félagslega færni sína sem barnafundir bjóða upp á. Eðlilega þarf að aðlaga form barnafunda að þroska og getu barnanna og þegar eru margir leikskólar sem nota einhvers konar form „hringfunda“ í starfi með börnum.Það er góð leið til að byrja að kynna grundvallarfærni barnafunda. Mikilvægt er að kennarar þekki grundvallaratriði Jákvæðs aga áður en farið er af stað með barnafundi og að búið sé að innleiða þau í starfið á deildum.

Af hverju barnafundir? Stundir þar sem börn sitja í hring er hefðbundið form í leikskólum, börnin syngja, það er lesið fyrir þau og farið í litla leiki. Ef kennarar nýta þessar stundir vel og á ígrundaðan hátt, geta þær gefið börnunum tækifæri til að upplifa að þau tilheyri barnahópnum og um leið þroskast tilfinningaleg og félagsleg færni, þ.m.t. samkennd, sjálfsstjórn, góðvild og lausnaleit. Þetta eru jafn mikilvægir þættir og hefðbundið nám seinna meir. Barnafundir sem eru einfaldir að formi eftir aldri og þroska barnanna kenna börnunum m.a.

 • Að upplifa að þau tilheyri hópnum sínum/deildinni sinni
 • Að finna leiðir til að leggja sitt af mörkunum til annarra
 • Að beita gagnrýninni hugsun og leita lausna
 • Að hjálpa öðrum
 • Að tjá sig skýrt og af virðingu
 • Að hlusta á aðra
 • Að nýta krafta sína á uppbyggilegan hátt
 • Að bíða þolinmóð
 • Að virða tilfinningar og skoðanir annarra

Mikilvægt er að hafa í huga að barnafundir þurfa ekki að vera fullkomnir til að gera gagn. Í raun eru barnafundirnir oft óútreiknanlegir, sérstaklega þegar börnin eru að læra hvernig umgjörðin og dagskráin er. Sundum leysast fundirnir upp, og það er allt í lagi. Börnin læra þrátt fyrir það mikilvæg gildi og færni í ferlinu sjálfu, og frá þeirra (og okkar) mistökum.

Umgjörð barnafunda - stoðirnar fjórar.

Stoðirnar fjórar eru eftirfarandi

 1. Við veitum hrós og hvatningu
 2. Við fylgjum eftir fyrri ákvörðunum og lausnum
 3. Mál á dagskrá
  1. við hlustum þegar aðrir tala
  2. við tölum saman án þess að bjarga málum
  3. við förum í lausnaleit
 4. Við gerum áætlanir fram í tímann (vettvangsferðir, verkefni, uppákomur)

Þar sem dagskrá barnafunda er ætíð sú sama læra nemendur við hverju er að búast og hvernig þeir geta best lagt sitt af mörkum til hópsins.Það gildir það sama um fundi og aðrar venjur sem börnum á leikskólaaldri er kennt, samræmi kennir þeim hvað kemur næst og það eykur þátttöku þeirra og auðveldar breytingar.

Einn af mikilvægustu markmiðum barnafunda er að gefa börnum tækifæri til að láta rödd sína heyrast og að veita þeim möguleika á að hjálpa öðrum. Kennarar þurfa að vera vera til staðar og tengdir, kenna ákveðna færni og leiðbeina og gefa börnunum tækifæri til að taka þátt við hvert tækifæri, jafnvel þegar þau virðast ekki alveg vera tilbúin eða þegar þau endurtaka hrós eða tillögur sem þegar hafa komið fram. Það hvorki hjálpar né er viðeigandi að skamma eða „aga“ barn sem er að reyna að læra nýja færni. (Í þessu tilviki er orðið „agi“ á þann hátt sem það er gjarnan notað, sem samheiti yfir refsingu.)

Tímasetning funda er mikilvæg, tími ræðst af stemmningunni í barnahópnum, getu barnanna og athyglisspön. Hægt er að einbeita sér að einum dagskrárlið fundar á hverjum fundi. Dagskrá, innihald og lengd fundar er ekki eins mikilvæg og það sem barnafundir þroska með börnunum; að þau tilheyri, að þau leggi sitt af mörkum og fái hvatningu. Mikilvægt er að nota handbrúður, söngva, sögur, málsteina og aðra leikmuni sem námstækifæri fyrir leikskólabörn. Jafn mikilvægt er að slaka á, hlægja saman, leika saman og læra saman.

Hugmynd – barn augnabliksins eða barn vikunnar. Í stað þess að allir fái hrós eða hvatningu er hægt að hafa barn augnabliksins, þá skrifar kennarinn nafn barnsins á stórt blað og öll hin börnin gefa því barni hrós, hvatningu eða þakklæti.

Gagnkvæm virðing og samstarf

© 2016 - 2023 Karellen