news

Fréttir af skólahaldi

16. 03. 2020

Tilkynning um skólahald hjá Akureyrarbæ

Stjórnendur leik-, grunn- og tónlistarskóla Akureyrarbæjar hafa síðan á föstudag unnið að útfærslu á skólastarfi í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis og stjórnvalda. Í dag hefur allt starfsfólk komið að málum og hver skóli útfært starf í viðkomandi skóla næstu daga og vikur.

Í ljósi þess að skólastarf verður með mismunandi hætti milli skóla eru foreldrar beðnir um fylgjast vel með upplýsingum sem birtast munu á heimasíðum skólanna auk þess sem allir foreldrar munu fá nánari upplýsingar í tölvupósti í dag, mánudag.

Grunnskólar

Kennsla verður í hópum með hámark 20 nemendum og ekki verður um blöndun hópa að ræða innan skóladagsins. Skólar munu halda úti eins miklu skólastarfi og kennslu og kostur er við þessar aðstæður. Útfærslan verður í höndum hvers skóla að skiptingu kennslu milli viðveru í skóla og náms heima. Nákvæm útfærsla verður því ólík milli skóla, allt eftir mannafla og aðstæðum á hverjum stað.

Öll hefðbundin kennsla í list- og verkgreinastofum mun falla niður og íþrótta- og sundkennsla verður í formi hreyfingar á skólalóð, inni í hópastofum eða annarrar útikennslu. Hver skóli skipuleggur nánari tilhögun skóladagsins og kennslutilhögun. Sérdeildir og sérskólar verða með óbreytta starfsemi eftir fremsta megni. Framreiðsla á mat verður í boði ef mögulegt er að koma því við.

Vettvangsferðir falla niður ásamt ferðum í skólabúðir.

Hugað verður sérstaklega að þörfum barna með hverskonar sérþarfir auk þess að tryggja þeim foreldrum sem starfa á heilbrigðisstofnunum þjónustu fyrir þeirra börn.

Leikskólar

Gert er ráð fyrir því að halda starfsemi leikskóla gangandi á sem öruggastan hátt með þeim hætti að börn verði í sem minnstum hópum og aðskilin sem mest. Vegna þessa raskast skólastarf í leikskólum, opnunartími getur breyst s.s. vegna þrifa sem nauðsynleg eru og í einhverjum tilvikum. Hver leikskóli mun upplýsa foreldra um útfærslu á skólastarfi á heimasíðu eða í gegnum aðra miðla.

Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar

Frístundaheimili verða opin í framhaldi af skóladegi yngstu nemenda en viðbúið er að starfsemi muni að einhverju leyti skerðast.

Tónlistarskólar og skólahljómsveitir

Tímar í hljóðfærakennslu og söngkennslu fara fram í húsnæði Tónlistarskóla Akureyrar. Hóptímar s.s. hljómsveitartímar, hópæfingar, tónfundir, forskóli og tónfræðitímar falla niður. Allir viðburðir tengdir þessari starfsemi falla niður. Viðmið þessi taka einnig til tónlistarnemenda sem eru eldri en 18 ára. Lögð er áhersla á að leitað sé leiða til að viðhalda virkni óháð fjarveru og niðurfellingu tónlistartíma. Nákvæmari útfærsla mun koma frá TA.

Skólaíþróttir og íþróttafélög

Ekki verður hefðbundin íþrótta- og sundkennsla á vegum grunnskóla í samkomubanninu. Viðkomandi húsnæði verður lokað fyrir skólakennslu og íþrótta- og sundkennarar vinna með námshópnum í heimastofu eða úti á skólalóð. Íþróttafélög munu gefa út eigin tilkynningar um íþróttaæfingar. Tilkynningar eru þegar komnar frá íþróttasamböndum um leikjabann.

© 2016 - 2024 Karellen