Leikskólar eru ætlaðir frískum börnum, ef börnin veikjast skulu þau dvelja heima þar til þau hafa verið hitalaus í a.m.k. 1-2 sólahringa og endurheimt þrótt sinn.

Þegar börnin koma aftur í skólann eftir veikindi geta þau í undantekningartilvikum fengið að vera inni í 1 dag. Hafa foreldrar þá samráð við deildarstjóra barna sinna.

Innivera þegar börnin eru að veikjast eða eru slöpp ekki leyfð. Ástæðan er sú að börnin smita önnur börn mest þegar þau sjálf eru að veikjast.


Nánari upplýsingar varðandi veikindi leikskólabarna og lyfjagjafir frá fyrrverandi yfirlækni, Þóri V. Þórissyni er að finna hér fyrir neðan.

Eftirfarandi ráðleggingar hafa verið samþykktar af heimilislæknum Heilsugæslu-stöðvarinnar á Akureyri.

Hiti: Barn með hækkaðan líkamshita, þ.e. yfir 38° hita við endaþarmsmælingu, verki og slen ætti ekki undir neinum kringumstæðum að vistast hjá dagforeldri eða leikskóla. Ástæðan er fyrst og fremst viðleitni til að draga úr vanlíðan barnsins sem fær meiri umönnun heima og sleppur við það áreiti sem fylgir því að vistast innan um heilbrigð börn. Athuga verður þó að mikil áreynsla getur orðið til þess að ungt barn fái hita yfir 38° („áreynsluhiti”) með sleni. Þau ættu að hressast af stuttri hvíld og gjöfdrykkjar.

Smit: Barn smitar mest þegar það er að veikjast og næstu 3-7 sólarhringana þar á eftir. Skal það dvelja heima þar til það er orðið hitalaust og hefur endurheimt þrótt sinn. Þegar barnið kemur aftur í leikskólann getur það í undantekningartilfellum fengið að vera inni í 1 sólarhring. Erfitt er þó að koma því við hjá dagforeldri og í þeim tilvikum er mælt með að barnið sé þá heima einn dag til.

Athugið að heilsa barnsins er hér í fyrirrúmi. Smithætta gagnvart öðrum börnum er atriði sem ekki ætti að vera að velta sér mikið upp úr þar sem nánast ómögulegt er að komast fyrir smit og sum barnanna sem virðast frísk eru að bera sýkilinn á milli barna, og jafnvel einkennalausir fullorðnir. Því er sú hugsun að einangra barn frá öðrum í flestum tilfellum tilgangslaus og óþörf. Að þessu sögðu ætti þó barn með augljóst smit ekki að sækja leikskóla eða vera vistað hjá dagforeldri. Gera verður þó undartekning með saklausar kvefpestir án hita og slappleika, nefrennsli og jafnvel augnrennsli samfara saklausu kvefi.

Sýkingar: Þegar barn er meðhöndlað með sýklalyfi vegna bakteríusýkinga sem berast manna á milli (streptókokkahálsbólgu, skarlatssótt, öndunarfærasýkingar, húðsýkinga) ætti barn að vera heima þar til sýklalyfjameðferð hefur staðið í a.m.k. einn sólarhring, og það er hitalaust og hefur endurheimt þrótt sinn. Varðandi eyrnabólgur og vægari þvagfærasýkingar þá slær fljótt á einkenni eftir að sýklagjöf er hafin og veikindi eru oft væg og þá er í lagi að þau börn sem eru á meðferð vegna þess sæki leikskóla eða til dagforeldris fyrr.

Flestar veirusýkingar (kvef, iðrakveisur, inflúenza, útbrotasýkingar aðrar en skarlatssótt) eru smitandi upp undir viku (3-7 daga), nema einkenni séu um garð gengin fyrr. Þess má geta að eins og fram hefur komið þá eru stýrur í augum og augnrennsli í fæstum tilfellum alvarlegra en hor og lagast venjulega án meðferðar, nema roði í hvítu eða þrútin augnlok sé að ræða. Ath. að augnsýkingar eru í langflestum tilfellum orsakaðar af kvefveirum. Valda roða, sviða/kláða og slímmyndun í báðum augum. Augnlok eru ekki bólgin. Oft meðfylgjandi kvef. Meðferð er reglulegur þvottur með volgu kranavatni. Ef einkenni dragast á langinn (>4-5 daga), versna eða ef þetta er bólgið auga þá ættu þau að fara til læknis í mat.

Í vafatilfellum ættu foreldrar að ráðfæra sig við sinn heimilislækni.

Sníkjudýrasmit: Greinist njálgur eða kláðamaur hjá barni ætti öll fjölskyldan að fá meðferð. Daginn eftir meðferð er smithættan liðin hjá og barnið má fara aftur á leikskólann eða til dagforeldris. Ekki er ástæða til að tilkynna þetta öðrum foreldrum nema tilfellin séu fleiri.

Lyfjagjafir: Ættu í flestum tilfellum að vera óþarfar á leikskóla eða hjá dagforeldri. Mjög sjaldgæft er að gefa þurfi lyf oftar en 3svar á dag. Þegar lyf er gefið 3svar á dag má gefa miðskammtinn þegar heim er komið, jafnvel þó það hafi liðið eitthvað yfir 8 tíma frá morgunskammtinum. Undantekningar á þessu geta þó verið sykursýkis-, asthma- eða ofnæmislyf. Í slíkum tilfellum er þó ráðlagt að fá skrifleg ummæli frá meðhöndlandi lækni og ítarlegar leiðbeiningar frá foreldrum barnsins og/eða lækni þess.

F.h. heilsugæslulækna á Akureyri, 20. október 2010

Þórir V. Þórisson yfirlæknir


Hér er að finna yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma barna: Yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma barna

© 2016 - 2021 Karellen