news

Nýtt tímabil í framkvæmdaáætlun Jákvæðs aga

03. 11. 2021

Nýja tímabilið nær frá 1. nóvember til og með 23. desember 21.

Verkfæri tímabilsins eru eftirfarandi:

­Sýndu nemendum að þér þyki vænt um þá

Við tökum vel á móti nemendum og foreldum og kveðjum í lok dags. Verum til staðar fyrir nemendur, hlustum á hvað þeir hafa fram að færa. Skerumst í leikinn þegar þurfa þykir en gefum nemendum þó tækifæri til að leysa sjálf úr málum. Setjum okkur í spor nemenda þegar þeir lýsa líðan sinni. Föðmum þá, strjúkum yfir bak og brosum og blikkum til þeirra svo þeir finni að þeir skipti okkur máli. Hvetjum þá áfram í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Síðast en ekki síst þurfa nemendur að finna að okkur þyki vænt um þá, sérstaklega þegar þeir gera mistök.

­Vertu sjálfum þér samkvæm/ur, ef þú segir eitthvað verður þú að geta staðið við það. Forðastu innantómar hótanir

Skýr skilaboð eru mikilvæg þegar kemur að nemendum, þeir þurfa að vita til hvers er ætlast af þeim, það þarf að kenna þeim en ekki gera ráð fyrir að þeir viti hvað það er sem við ætlumst til. Við hótum aldrei nemendum, við gefum þeim skýra valkosti þegar það er í boði, annars gefum við til kynna að ákveðnir hlutir séu ekki í boði. Nemendum ber að fylgja ákveðnum skólareglum og þeir læra líka að það er óásættanlegt að meiða aðra einstaklinga.

­Bjóddu afmarkaða (tvo) valkosti

Gefum umhugsunartíma, verum dugleg að finna upp tvojafngóða kosti. Gott er að segja „þú velur/ákveður“ í lokin. Þá er hægt að koma í veg fyrir valdabaráttu á milli nemenda og kennara/foreldra og nemendur finna að þeir og þeirra skoðanir skipta máli. Höfum líka í huga að stundum eiga nemendur ekki að hafa val, það er okkar kennara/foreldra að taka sumar ákvarðanir án umræðna.

­Framkvæmdu í stað þess að tala

Spörum okkur ræðuhöldin og sýnum með fordæmi hvað það er sem við viljum kenna eða koma áleiðis, sem dæmi ef nemandi lætur matardiskinn sinn ekki vera á borðinu þá annað hvort setjum við hendina yfir diskinn til að stöðva hann eða hreinlega fjarlægjum diskinn án orða. Skilaboðin komast skýrt til skila.

­Notaðu Griðastaðinn og leggðu áherslu á að kenna nemendum að nota hann þegar þeir eru í ójafnvægi.

Hugmyndin með Griðastaðnum er að það sé staður sem hægt er að leita til þegar nemendur eru í ójafnvægi og þeir þurfa að draga sig í hlé til að róa sig niður, „tengja heilann“. Þá verða þeir á nýjan leik betur í stakk búnir til að taka yfirvegaðar ákvarðanir, setja sig í spor annarra og finna lausnir sem allir aðilar geta sætt sig við.

Í þessum aðstæðum getur verið gott fyrir nemednur að hafa ákveðinn stað til að fara á þar sem þeir geta gert eitthvað sem róar þá og lætur þeim líða betur. Þar geta þeirskoðað bækur, knúsað bangsa, hlustað á tónlist, teiknað, nuddað augabrúnir, andað með maganum eða horft út í loftið eða ..., möguleikarnir eru óþrjótandi og snúast um að þeir læri hvað róar þá best. Við þurfum að kenna og hjálpa nemendum að finna út sínar leiðir en það er einnig afar mikilvægt fyrir okkur fullorðna fólkið að hafa í huga að sömu lögmál gilda fyrir okkur.Þannig að þegar við erum æst eða í ójafnvægi af einhverjum sökum, þurfum við að finna leið til að láta okkur líða betur og komast þannig í betra jafnvægi.Það er allt í lagi að nota merkið okkar (opinn lófi) og gefa þannig hvert öðru og nemendum til kynna að við séum ekki í jafnvægi og þurfum að ná ró í okkar huga.

Mikilvægt er að hafa að huga að það er alltaf val nemenda að fara í Griðastaðinn, aldrei má setja þá þangað án þeirra samþykkis.Griðastaðurinn er leið til hjálpar en ekki refsing. Hægt er að hafa Griðastaðinn sem valkost á móti t.d því að sitja við hlið kennara á meðan nemandinn jafnar sig.

© 2016 - 2022 Karellen