news

Nýtt tímabil í framkvæmdaáætlun Jákvæðs aga er hafið.

07. 09. 2020

Nýtt tímabil í framkvæmdaáætlun Jákvæðs aga hefst í dag, 7. september og nær til föstudagsins 16. október.

Kennarar vinna markvisst með eftirfarandi verkfæri:

­Sýndu góðvild og festu

Við sýnum nemendum alltaf að þeir skipti okkur máli og að okkur þyki vænt um þá um leið og við fylgjum eftir ákvörðunum og reglum með festu, án þess að hóta, refsa eða skammast. Það að sýna góðvild og festu er einn af undirstöðuþáttum jákvæðs aga. Við erum föst fyrir og ákveðin en um leið sýnum við væntumþykju og virðingu.

­Náðu tengingu við nemendur áður en þú leiðréttir hegðun þeirra.

Við þurfum að ná tengingu við nemendur áður en við leiðréttum eða leiðbeinum þeim. Náum augnsambandi, snertum þá mjúklega eða tölum rólega við þá, það skilar mun betri árangri heldur enað hella sér yfir þá og segja þeim svo hvernig þeir eigi ekki að gera eða vera. Höfum í huga að nemendum gengur betur þegar þeim líður vel, sleppum öllu nöldri og skömmum en notum opnar spurningar og leiðbeiningu með góðvild og festu.

­Þegar nemendur og við sjálf gerum mistök, drögum lærdóm af þeim og ræðum opinskátt. Mistök eru tækifæri til að læra

Temjum okkur að viðurkenna mistök, vera opin fyrir að fá leiðbeiningu og að veita leiðbeiningu, biðja um leiðbeiningu og leita ráða.Dæmum hvorki okkur né aðra of hart, við erum ekki fullkomin, og ekki nemendur heldur. Vöndumokkur í samskiptum. Sköpum vettvang fyrir umræðu, ræðum hvað hefur gerst. Við þurfum að hugsa um hvernig við gagnrýnum hvert annað og hvernig við gerum það. Hvernig opnum við umræðuna. Góðu fréttirnar eru þær að mistök eru einstakt tækifæri til að læra af, vaxa og þroskast. Ef við erum tilbúin að fyrirgefa, faðma og finna nýjar leiðir – fara í lausnaleit, verðum við nánari nemendum. Þegar við erum búin að átta okkur á því hve frábær tækifæri mistök eru til að læra af, getum við skapað andrúmsloft þar sem hlátur og undur umvefja mistökin sem nemendur og við gerum.

­Notaðu opnar spurningar, hvað hvernig hvers vegna. Hlustaðu vel eftir sjónarmiðum nemenda

Fáum fram hvað það er sem nemendur eru að reyna að segja okkur, gefum þeim tækifæri til að koma hugsunum sínum í orð í stað þess að segja þeim hvað, hvernig og hvers vegna.

­Hafðu barnafundi reglulega

Barnafundir eru frábær leið til að hjálpa nemendum að læra um samstarf og samskipti, að leggja hugmyndir til málana, að hjálpa hvert öðru, að leita lausna,efla/þjálfa dómgreind sína og þekkingu og að sammælast. Mikilvægasti tilgangur barna- eða fjölskyldufunda er að gefa nemendum þá tilfinningu að þeir finni að þeir tilheyri hópi og geti lagt sitt af mörkum.

Á barnafundum setjast nemendur í hring. Fundirnir byggjast upp á fjórum stoðum sem eru eftirfarandi.

1.Við veitum hrós og hvatningu

Yngri börn átta sig oft ekki á hvað hvatning og þakklæti er en segja t.d. í þess stað „mamma mín er best“, þau segja það sem er þeim efst í huga. Hlutverk kennarans er að þakka fyrir athugasemdina, brosa og sýna að hann meti framlag barnanna. Kennarinn getur líka spurt opinna spurninga til að hjálpa börnunum að veita hvatningu eða þakklæti.

2.Við fylgjum eftir fyrri ákvörðunum og lausnum

M.a. er hægt að fara yfir sáttmála og ræða þá, þarf að breyta eða bæta við þá? Fara yfir lausnir að málum, eru lausnirnar hjálplegar og sýna þær virðingu?

3. Mál á dagskrá

§við hlustum þegar aðrir tala

§við tölum saman án þess að bjarga málum

§við förum í lausnaleit

4. Við gerum áætlanir fram í tímann (vettvangsferðir, verkefni, uppákomur)

Börnin eða kennararnir koma með hugmyndir sem hægt er að gera, þetta getur verið varðandi vettvangsferð, hvað gert verður í samverustund eða í útiveru. Síðan er tekin sameiginleg ákvörðun um hvað gert verður. Einnig er hægt að ákveða reglur sem gilda um ákveðna þætti ísameiningu en börn vilja mun frekar fylgja reglum sem þauhafa tekið þátt í að semja.

© 2016 - 2024 Karellen